Skólaslit 2016

þann .

Útskrift 10. bekkjar verður á miðvikudaginn 8. júní klukkan 18:00 og verður hátíðleg dagskrá af því tilefni á sal skólans. Til siðs hefur verið að foreldrar leggi til veitingar á kaffiborðið en skólinn býður upp á kaffi og gos. Foreldrar nemenda í 10. bekk hafa fengið upplýsingar varðandi það í tölvupósti.

Skólaslit verða 9. júní hjá 1. –9. bekk.  1.-5. bekkur mætir kl. 10:00 og 6.-9. bekkur kl. 10:30.

Byrjað verður á sal með stuttri formlegri dagskrá, söng og gleði. Síðan halda nemendur í heimastofu og kveðja umsjónarkennara og starfsmenn. 

Við vonumst til að sjá sem flesta foreldra með börnum sínum á skólaslitunum.

kindergarten graduation graphics clipart 1

Heimsókn á bókasafn

þann .

6. HA fór í heimsókn á bókasafnið í Spönginni í morgun. Þar tók á móti okkur starfsmaður og kynnti sumarlestur borgarbókasafnanna og eins hvernig hægt er að fá bókasafnsskírteini en þau eru einstaklingum 18 ára og yngri að kostnaðarlausu. Einnig fengum við nokkur góð ráð til að hafa í huga þegar við veljum okkur bækur til að lesa svo þær bæði hæfi getu og áhugamálum.

Vert er að taka fram að bókum á borgarbókasafni má skila í hvaða útibúi sem er, það fannst okkur mjög góð þjónusta.

Þeir nemendur sem þegar voru með skírteini eða höfðu fengið áður gátu tekið sér bækur í lok heimsóknarinnar og nýttu nokkrir sér þann möguleika. Þeir sem ekki hafa áður fengið skírteini fá heim með sér eyðublað sem þau fylla út í samráði við foreldra/forráðamenn.

Fleiri myndir er að finna í myndasafni.

IMG 2677

Nýsköpunarkeppni grunnskóla

þann .

Magnús Máni Kjærnested og María Sif Óskarsdóttir nemendur í 7. bekk Ingunnarskóla komust í úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með verkefnið eineltishúfa. 

Lokahóf keppninnar var haldið í HR sunnudaginn 22. maí. Það voru 39 hugmyndaríkir krakkar úr 5. – 7. bekk sem komust áfram í vinnustofur og í úrslit keppninnar með samtals 27 hugmyndir. Vinnustofurnar stóðu yfir í þrjá daga og unnu börnin í tvo daga í HR að hugmyndum sínum, útbjuggu frumgerðir og kynningarspjöld sem voru til sýnis á lokahófinu. Þriðja daginn unnu börnin í vinnusmiðju í Arionbanka að fjármálalæsi og öðru því tengdu. 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hélt í fyrsta skiptið í ár utan um keppnina í góðu samstarfi og stuðningi HR, Arionbanka og fleiri góða aðila, en eigandi keppninnar er Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Allir aðilar voru stoltir og ánægðir með árangurinn og ekki síst hvað börnin voru öll frábær, metnaðargjörn og dugleg í starfi sínu. Börnin komu frá 38 skólum alls staðar að af landinu, en samtals bárust keppninni 1750 hugmyndir frá flestum grunnskólum landsins. Það má því með sanni segja að framtíðin sé björt í nýsköpun landsins.  

Nánari upplýsingar um keppnina, hugmyndirnar og keppendurna ásmat myndum má finna á Facebook síðu keppninnar hér:     

IMG 0773 MMM

1. sæti í Siljunni 2016

þann .

Barnabókasetur stóð fyrir myndbandasamkeppninni Siljunni fyrir nemendur í 5. til 10. bekk grunnskóla. Keppt var í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.

Markmið keppninnar er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Nokkrir nemendur Ingunnarskóla sendu inn myndbönd í keppnina og gerði einn hópurinn sér lítið fyrir og hlaut 1. sætið í flokki 5.-7. bekkjar.  

Það voru þær Emilía Anna, María Bridde, Ríkey og Sóley Bára sem eru allar í 4.-5. LR en þær gerður myndband byggt á bókinni Gummi og huldufólkið. Þær hlutu að launum verðlaunaskjal og peningaverðlaun auk þess sem bókasafnið okkar fékk 100.000 króna bókaúttekt. Stúlkurnar munu síðan aðstoða Karen á bókasafninu að velja bækurnar og aðstoða hana við að raða þeim upp þegar þær berast.

Flottur árangur hjá stúlkunum.

Umfjöllun Krakka-Rúv

samvera 6.mai 008 Afrit

Vormót Víkingaklúbbsins

þann .

29 keppendur tóku þátt í Vormóti Víkingaklúbbsins í skák miðvikudaginn 11. maí. Sjö keppendur frá Ingunnarskóla tóku þátt. Magnús 5.b náði þeim frábæra árangri að ná 2. sæti á eftir meistaranum Aron Þór Mai. Magnús fékk 5. vinninga af 6 mögulegum. Jökull Bjarki 2.b varð efstur af þeim keppendum sem fæddir eru árið 2008, en hann fékk 4. vinninga af 6 mögulegum.

Nánari úrslit er að finna hér.

skakmyndVerðlaunahafar á Vormótinu.  Mynd: Gunnar Freyr Rúnarsson

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |